Ríkissjórn Olaf Scholz Þýskalandskanslara er sprakk í gær eftir að einn þriggja stjórnarflokkanna ákvað að segja skilið við ríkisstjórnina. Það gerðist í kjölfar þess að Scholz ákvað að reka fjármálaráðherrann Christian Lindner, leiðtoga Frjálslynda lýðræðisflokksins, í gærkvöldi.
Scholz hefur tilkynnt að vantrauststillaga á hendur ríkisstjórn hans verði tekin fyrir í þinginu snemma á næsta ári. Verði hún samþykkt gæti það leitt til þess að kosningum verði flýtt og færu fram í vor.
Mikil óvissa er þó uppi í þýskum stjórnmálum þessar klukkustundirnar en á blaðamannafundi nú fyrir hádegið krafðist Friedrich Merz, sem er formaður Kristilegra demókrata, að vantrauststillagan verði tekin fyrir nú þegar, í stað þess að bíða fram á næsta ár.
Merz, sem er talinn líklegur sem næsti kanslari Þýskalands, sagði ótækt að bíða svo lengi eftir atkvæðagreiðslunni, augljóst sé að ríkisstjórn Scholz skorti umboð til að stjórna og því skuli skorið úr um vantraust eins fljótt og mögulegt er, í síðasta lagi í næstu viku.
Gangi þetta eftir og verði vantraustið samþykkt, má því reikna með kosningum í Þýskalandi strax í janúar en ekki í vor, eins og Scholz vill.
Flokkarnir sem stóðu að ríkisstjórn Scholz, Sósíaldemókratar, flokkur Scholz, Græningjar og FDP, höfðu undanfarna mánuði átt í nokkuð hörðum deilum um efnahagsstjórn landsins. Þær deilur hafa leitt til þess að stjórnin hefur sífellt orðið óvinsælli meðal þýsks almennings.