Innlent

Engar upp­lýsingar fást um tengsl konunnar við barnið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samkvæmt heimildum fréttastofu var konan nýkomin úr húsnæði fyrir hælisleitendur sem rekið er í gömlum leikskóla við Sólheima.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var konan nýkomin úr húsnæði fyrir hælisleitendur sem rekið er í gömlum leikskóla við Sólheima. Já.is

Embætti ríkislögreglustjóra hyggst ekki veita frekari upplýsingar um umfangsmikla lögregluaðgerð í Sólheimum í Reykjavík í gær þar sem kona vopnuð hnífi með ungt barn var yfirbuguð.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með mikinn viðbúnað í Sólheimum í Reykjavík í hádeginu í gær eftir að tilkynning barst um konu þar í miklu ójafnvægi fyrir utan hús við götuna.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær sagði að konan hefði verið með lítið barn meðferðis og óttast að hún myndi vinna því og sjálfri sér skaða, en konan var með hníf í hendinni.

„Fjöldi viðbragðsaðila var kallaður á vettvang, meðal annars samningamenn frá embætti ríkislögreglustjóra, en eftir töluverðar samningaviðræður tókst loks að yfirbuga konuna, en hvorki hana né barnið sakaði í aðgerðum lögreglunnar,“ segir í tilkynningunni.

Í framhaldinu hafi konunni verið komið undir læknishendur og barninu í umsjá barnaverndaryfirvalda. Lokað var fyrir umferð um Sólheima á meðan aðgerðum lögreglunnar stóð, en lokunum var aflétt um eittleytið.

Ekki var greint frá tengslum konunnar við barnið í tilkynningu til fjölmiðla. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði konan nokkru áður komið út úr húsnæði sem býður upp á úrræði fyrir hælisleitendur í Sólheimum 29-35 þar sem lengi var starfræktur leikskóli.

Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, segir að engar frekari upplýsingar verði veittar um málið enda sé rannsókn þess í fullum gangi.


Tengdar fréttir

Yfirbuguðu konu með lítið barn og hníf í hendi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með mikinn viðbúnað í Sólheimum í Reykjavík í hádeginu eftir að tilkynning barst um konu þar í miklu ójafnvægi fyrir utan hús við götuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×