Mjólkurbúið, sem er starfrækt í London, er sagt hafa afhent 950 svokölluð hjól af cheddarosti til mannsins sem að þóttist vera fulltrúi franskrar heildsölu. Osturinn mun hafa verið metinn á 300 þúsund pund, sem jafngildir um 53 milljónum króna.
The Guardian greinir frá málinu, en þar segir að grunur sé um að osturinn hafi verið fluttur til Rússlands eða Miðausturlanda.
Breski stjörnukokkurinn Jamie Oliver er á meðal þeirra sem hefur tjáð sig um málið. Hann varar fylgjendur sína á samfélagsmiðlum við því að kaupa mikið magn af hágæðaosti á útsöluverði.
„Umfangsmikið ostarán hefur verið framið. Einhverjum besta cheddarosti heims hefur verið stolið,“ segir Oliver.
„Ef þið heyrið af fínum osti sem er seldur á lítinn pening þá gæti eitthvað gruggugt verið á seyði.“
Ben Ticehurst, aðalostagerðarmaðurinn hjá Trethowan Brothers-mjólkurbúinu sem mun hafa framleitt tólf tonn af þeim 22 sem var stolið er brugðið. „Við, eins og allir aðrir, veltum fyrir okkur hver vill svona mikinn ost? Ef þú ert ekki kjörbúð, hvað hefur þú þá að gera með 22 tonn af osti? Þetta vefst mikið fyrir okkur og vonandi mun þessi handtaka færa okkur svör.“