Mahomes og eiginkona hans Brittany hafa þegar eignast hlut í liðum í kvennafótboltanum (Kansas City Current, NWSL) hafnaboltanum (Kansas City Royals, MLB) og karlafótboltanum (Sporting KC, MLS).
Mahomes hjónin vilja nú eignast lið í WNBA deildinni í körfubolta sem yrði þá viðbótarlið ef deildin verður stækkuð á næstu árum.
Kansas City er á góðri leið með að vera ein af stóru íþróttaborgunum þökk sé þeim hjónum.
„Við viljum koma með körfuboltann til Kansas City og þá lið sem spilar í WNBA. Miðað við velgengnina hjá deildinni í vetur og undanfarin ár þá er þetta sjálfgefið,“ sagði Patrick Mahomes.
„Það er stefnan að koma hingað með WNBA lið. Við sjáum körfuboltaáhugann hjá University of Kansas liðinu og áhugann á Chiefs. Fólkið hér mun mæta og fylla höllina,“ sagði Mahomes.
„Það var flott að geta komið með fótboltalið hingað og þær eru á leiðinni í úrslitakeppnina. Við sjáum líka stuðninginn sem þær fá. Þannig að nú er bara að fá WNBA lið hingað líka með sama eigendahóp. Þau hafa staðið vel að öll hjá Current liðinu og nú er bara að taka næsta skref,“ sagði Mahomes.
Kansas City byggði stóra höll, T-Mobile Center, árið 2007 með það markmið að reyna að fá NBA lið eða íshokkílið til borgarinnar. Það hefur ekki tekist enn þá.
WNBA ætlar að bæta við þremur nýjum liðum á næstu tveimur tímabilum en þau lið eru Golden State, Portland og Toronto. WNBA hefur einnig áhuga að fá sextánda liðið inn fyrir 2028 tímabilið.