Breiðablik heimsótti Víkinga í hreinum úrslitaleik um titilinn. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, en Víkingar höfðu betri markatölu og þeim nægði því jafntefli til að tryggja sér titilinn. Blikar þurftu hins vegar á sigri að halda.
Gestirnir frá Kópavogi voru heilt yfir sterkari í leiknum og Ísak Snær Þorvaldsson kom Breiðabliki yfir á 37. mínútu með góðri afgreiðslu eftir smá barning inni á teignum.
Ísak bætti svo öðru marki Blika við snemma í síðari hálfleik þegar hann stýrði skoti Höskuldar Gunnlaugssonar yfir línuna, en það var hins vegar miðvörðurinn Damir Muminovic sem átti stærstan þátt í markinu þegar hann sýndi lipra takta úti á kanti.
Aron Bjarnason gerði svo út um leikinn þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Kristinn Steindórsson lyfti boltanum þá snyrtilega inn fyrir vörn Víkinga áður en Aron gerði slíkt hið sama og lyfti boltanum snyrtilega yfir Ingvar Jónsson í marki Víkinga.
Lokatölur því 3-0, Blikum í vil, og Íslandsmeistaratitillinn er kominn aftur í Kópavoginn.