Skoðun

Hug­leiðingar um kjör og starfs­um­hverfi kennara

Þórgunnur Stefánsdóttir skrifar

Hvers vegna fjölgar þeim stöðugt sem velja að vinna á öðrum starfsvettvangi en þeim sem þeir menntuðu sig til?

Hér er ég að vísa til kennarastéttarinnar en ljóst er að þeim fækkar sífellt sem velja að gerast kennarar. Það er meiri eftirspurn eftir kennurum heldur en framboð og margir þeirra sem hafa menntað sig í faginu hafa ekki skilað sér inn í skólana, þrátt fyrir öll þessi frí og önnur hlunnindi sem svo mörgum verður tíðrætt um. Þetta er niðurstaðan af þróun á kjörum og starfsumhverfi kennara undanfarin ár og jafnvel áratugi. Á almennum vinnumarkaði leiðir slík staða gjarnan til þess að starfskjör batna þar til viðkomandi fyrirtæki eða atvinnugrein er orðin samkeppnisfær um starfsfólk. 

Þeir sem ekki ná að gera það verða einfaldlega undir í samkeppninni. Hjá hinu opinbera virðist lausnin eiga að felast í því að vera með undirmannaða starfsgrein og slá af kröfum með því að fylla í skarðið með aðilum sem hafa hvorki tilskylda menntun né reynslu í starfið. Samhliða hefur verkefnum fjölgað og flækjustig aukist án þess að því sé fylgt eftir með nægu fjármagni til að hægt sé að tryggja mönnun og aðföng til að leysa þessi verkefni. Þeim er einfaldlega bætt á þá sem fyrir eru og ætlast til að hlutirnir gangi bara upp af sjálfu sér. Afleiðingarnar eru aukið álag sem leiðir af sér aukin veikindi og að erfiðara er að fá menntað fagfólk til starfa. Til lengri tíma er hætt við að þetta skili sér í minni gæðum og minni árangri í skólastarfi. 

Önnur leið til að segja þetta er að skólarnir okkar og menntakerfið verður undir í samkeppninni. Mælingar sem stundum er vísað til eins og margumrædd PISA könnun virðist benda til að þetta sé þegar orðin niðurstaðan. Ef svona staða kemur upp hjá fyrirtækjum í einkageiranum er það oftast talið á ábyrgð stjórnar og forstjóra viðkomandi fyrirtækis. Í tilviki skólanna tíðkast hins vegar að skella skuldinni á starfsfólkið, kennarana sem þó eru enn að störfum í skólunum. Kannski er það bara ekki undarlegt að fólk hugsi sig um tvisvar áður en það velur að gefa kost á sér inn í þetta starfsumhverfi.

Höfundur er kennari




Skoðun

Skoðun

Reykja­vík er höfuð­borg okkar allra

Ásthildur Sturludóttir,Dagmar Ýr Stefánsdóttir,Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir,Gerður Björk Sveinsdóttir,Íris Róbertsdóttir,Jóna Árný Þórðardóttir,Katrín Sigurjónsdóttir,Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir,Sigríður Júlía Brynleifsdóttir,Sigurjón Andrésson skrifar

Skoðun

Ás­laug Arna er fram­tíðin

Anton Berg Sævarsson,Birkir Örn Þorsteinsson,Birta Karen Tryggvadóttir,Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir,Ísak Svavarsson,Lovísa Ólafsdóttir,Páll Orri Pálsson,Þorleifur Hallbjörn Ingólfsson skrifar

Sjá meira


×