Erlent

Hundrað og fjögur ríki lýsa yfir stuðningi við Guterres

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Guterres hefur verið lýstur persona non grata í Ísrael.
Guterres hefur verið lýstur persona non grata í Ísrael. AP/UNTV

Hundrað og fjögur ríki eiga aðild að sameiginlegri stuðningsyfirlýsingu við António Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, eftir að stjórnvöld í Ísrael lýstu hann „persona non grata“.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars að ákvörðun Ísraels grafi undan getu Sameinuðu þjóðanna til að sinna hlutverki sínu, sem felst meðal annars í að miðla málum milli ríkja í átökum og standa fyrir mannúðaraðstoð.

Ísraelsmenn lýstu Guterres „persona non grata“ eftir að Guterres harmaði stigmögnun átaka í Mið-Austurlöndum í kjölfar árásar Íran á Ísrael en án þess að fordæma árásina beinum orðum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur þegar lýst yfir stuðningi við Guterres og ítrekað nauðsyn þess að öll ríki eigi í virku og uppbyggilegu sambandi við framkvæmdastjórann.

Fjallað er um rétt ríkja til að lýsa sendimenn annarra ríkja „persona non grata“, óæskilega persónu, í Vínarsamningnum um stjórnmálasambönd. Þar segir í 9. grein:

„1. Móttökuríkið getur hvenær sem er, og án þess að þurfa að gefa skýringar á ákvörðun sinni, tilkynnt sendiríkinu að forstöðumaður sendiráðs eða annar stjórnarsendimaður sé persona non grata eða einhver annar úr hópi starfsmanna sendiráðs sé ekki viðtökuhæfur. Í öllum slíkum tilvikum skal sendiríki, eftir því sem við á, annaðhvort kalla hlutaðeigandi mann heim eða binda endi á starf hans í sendiráðinu. Lýsa má yfir að maður sé persona non grata, eða ekki viðtökuhæfur, áður en hann kemur í land móttökuríkisins.

2. Ef sendiríkið neitar eða lætur undir höfuð leggjast að framkvæma skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar innan hæfilegs frests, getur móttökuríkið neitað að viðurkenna hlutaðeigandi mann sem sendiráðsmann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×