Innlent

Öllum sund­laugum á höfuð­borgar­svæðinu lokað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tómlegt verður í Laugardalslaug á meðan bilunin er í gangi.
Tómlegt verður í Laugardalslaug á meðan bilunin er í gangi. vísir/vilhelm

Öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið lokað vegna bilunar í Nesjavallavirkjun Orku náttúrunnar í morgun. Óvíst er hvenær hægt verður að opna á nýjan leik. Þá hafa gervigrasvellir borgarinnar sem hitaðir eru með heitu vatni verið settir á lægstu stillingu.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Laugardalslaugar. Þar segir: 

„Lokað er í öllum sundlaugum Reykjavíkur vegna bilunar á Nesjavöllum. Við látum vita þegar skýrist betur hvenær hægt er að opna á ný.“

Fólk er í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur hvatt til að fara sparlega með heita vatnið vegna bilunar.

„Bilun varð í Nesjavallavirkjun Orku náttúrunnar í morgun sem orsakaði skerta framleiðslu á heitu vatni. Hluti þeirra véla sem sjá um framleiðsluna eru komnar aftur af stað en virkjunin er ekki á fullum afköstum. Vegna þessa biðja Veitur sem dreifa vatninu til íbúa á höfuðborgarsvæðinu, fólk um að fara sparlega með heita vatnið á meðan á viðgerð stendur,“ segir í tilkynningunni.

„Það sem við eigum við þegar við hvetjum fólk til þess að fara sparlega með vatnið er ekki að fólk sleppi því að fara í sturtu. Fyrst og fremst skiptir máli að fólk reyni að halda varmanum inni í húsum sínum og sé ekki með glugga opna að óþörfu eða láti renna í pottinn á meðan á viðgerðinni stendur,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna.

Þá hafi Veitur einnig haft samband við sína stærstu viðskiptavini sem eru á skerðanlegum töxtum og biðlað til þeirra að lágmarka heitavatnsnotkun eins og unnt er. Þetta séu þeir viðskiptavinir sem kaupi heitt vatn á afslætti gegn því að þegar ástand líkt og hér um ræðir skapist, hafi Veitur heimild til skerðinga.

„Við erum að reka tvær hitaveitur á höfuðborgarsvæðinu og það er hlutverk okkar að gera allt sem við getum til þess að halda þeim í jafnvægi. Að biðla til fólks um að minnka notkun og halda hitanum inni er liður í því að tryggja þetta jafnvægi.“

Frekari upplýsingar verði gefnar út þegar þær liggja fyrir.

Uppfært klukkan 16:00

Tilkynning frá Reykjavíkurborg: 

Vegna bilunar í Nesjavallavirkjun Orku Náttúrunnar er nú skert flæði á heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins. Vegna þessa hefur Reykjavíkurborg lokað öllum sínum átta sundlaugum og óljóst er hvenær hægt verður að opna þær aftur.

Hluti þeirra véla sem sjá um framleiðsluna í Nesjavallavirkjun eru komnar aftur af stað en virkjunin er ekki á fullum afköstum. Vegna þessa biðja Veitur sem dreifa vatninu til íbúa á höfuðborgarsvæðinu, fólk um að fara sparlega með heita vatnið á meðan á viðgerð stendur.

Veitur höfðu samband við sína stærstu viðskiptavini með ósk um að heitavatnsnotkun yrði lágmörkuð eins mikið og hægt er til setja heimili og viðkvæma starfsemi í forgang. Reykjavíkurborg hefur orðið við þeirri beiðni og hefur sundlaugum því verið lokað og gervigrasvellir stilltir á lægstu stillingu.

Uppfært klukkan 20:41

Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu tilkynntu líka um lokun sundlauga og því var fyrirsögn og frétt breytt í samræmi við það. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×