Skagamaðurinn Árni Snær Ólafsson hefur verið aðalmarkvörður Stjörnunnar síðustu tvö ár en hann fær nú samkeppni frá Aroni Degi sem kveðst afar spenntur fyrir komunni í Garðabæinn.
„Ég hafði mikinn áhuga að ganga til liðs við Stjörnuna eftir að hafa horft á þá spila einn flottasta fótbolta á landinu undanfarin ár. Ég er að koma inn í flottustu aðstöðu á landinu með flottustu þjálfara landsins og tel að ég eigi eftir að bæta mig helling hérna. Ég er alltaf spenntur á að takast á við ný verkefni og sérstaklega svona krefjandi verkefni þar sem það er búist við miklu af liði eins og Stjörnunni. Áfram Stjarnan!“ er haft eftir Aroni Degi í tilkynningu Stjörnunnar.
Aron Dagur er uppalinn hjá KA á Akureyri og lék þar sína fyrstu leiki í meistaraflokki árið 2016, þá aðeins sautján ára gamall.
Hann hefur samtals leikið átján leiki í efstu deild en 85 leiki í næstefstu deild og einnig 22 leiki fyrir Völsung í C-deild sumarið 2018.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Stjarnan tilkynnir um liðsstyrk en félagið hefur einnig tryggt sér atvinnumanninn og HM-farann Samúel Kára Friðjónsson.