Víkingur Reykjavík og Stjarnan mættust í þýðingarmiklum leik fyrir bæði lið í þriðju umferð úrslitakeppni efri hluta Bestu deildar karla á sunnudaginn í leik sem endaði með 2-2 jafntefli en öll mörk leiksins komu á síðasta stundarfjórðungi hans.
Glæsimark Emils Atlasonar var fyrst í röðinni og var af dýrari gerðinni því það kom eftir hnitmiðaða og yfirvegaða spyrnu Emils fyrir aftan miðju. Mark sem verður lengi í minnum haft og má sjá hér fyrir neðan.
„Mér finnst þetta algjört yfirburðar mark af þeim sem við höfum séð í sumar,“ sagði markahrókurinn Atli Viðar Björnsson, einn af sérfræðingum Stúkunnar um mark Emils. „Það eru svo ótrúlega mikil gæði í þessu. Þetta er svo meðvitað og það að geta framkvæmt þetta svona. Fullkomin spyrna.
Fyrir mér er þetta langbesta mark sumarsins og ég myndi fara einhver ár aftur í tímann og segja að þetta sé besta mark efstu deildar sem ég hef séð síðustu þrjú til fimm árin. Þetta sjáum við bara á margra ára fresti. Fyrir mér er þetta mark algjörlega einstakt.“