Innlent

Tveir reyndust í skotti bíls

Jón Þór Stefánsson skrifar
Tveir voru í skotti bíls sem ók um miðbæ Reykjavíkur.
Tveir voru í skotti bíls sem ók um miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Lögreglan stöðvaði ökumann í miðbæ Reykjavíkur í nótt en bíll hans reyndist vera með of marga farþega. Tveir voru í farangursrými bílsins.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar er jafnframt greint frá öðrum málum sem varða umferðina. Í Múlahverfinu varð tveggja bíla árekstur, en ökumaður annars bílsins reyndist ölvaður.

Í Hlíðarhverfi var ekið á mann á vespu, en hann var í kjölfarið fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.

Þá var bakkað á gangandi vegfaranda í miðbænum. Sá hlaut minniháttar meiðsli og leitaði sjálfur á slysadeild.

Í Grafarholti var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann neitaði að segja til nafns eða framvísa ökuskírteini.

Í Hlíðarhverfi var maður handtekinn sem þótti til vandræða. Hann er sagður hafa valdið eignaspjöllum á húsnæði. Hann hafi verið í annarlegu ástandi og því ekki hægt að taka skýrslu af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×