Frumvarpið sem þingið samþykkti fól meðal annars í sér bann gegn hjónaböndum samkynja einstaklinga, bann gegn ættleiðingum samkynja einstaklinga og takmarkanir á aðgengi að kynleiðréttingarúrræðum.
Þá fólu lögin í sér aðför að sýnileika hinsegin fólks, meðal annars með takmörkunum á hinsegin viðburðum í ætt við Gleðigönguna og ritskoðun á kvikmyndum og bókum.
Ákvörðun forsetans þýðir þó ekki að frumvarpið verði ekki að lögum en það hefur verið sent aftur til þingsins þar sem þingforsetinn getur lögfest það með undirritun sinni.
Málið er afar umdeilt í Georgíu en stjórnmálaskýrendur segja niðurstöður þingkosninga sem boðað hefur verið til í lok mánaðar munu varpa ljósi á það hvort landið er raunverulega að þokast í átt að Rússlandi, eins og umrædd löggjöf þykir gefa til kynna.
Aðgerðasinnar segja lögin alvarlega aðför gegn hinsegin fólki og þá hefur Josep Borrell, framkvæmdastjóri utanríkismála hjá Evrópusambandinu, gagnrýnt lögin harðlega og sagt þau munu ýta undir ofbeldi.
Einum degi eftir að frumvarpið var samþykkt í þinginu, í atkvæðagreiðslu sem stjórnarandstöðuþingmenn sniðgengu, var leikkonan og fyrirsætan Kesaria Abramidze, transkona, myrt á heimili sínu.