Kolla Grasa eins og hún er oftast kölluð er með góð ráð við því hvernig við getum haldið okkur heilbrigðum og unglegum. Og hún notar til dæmis laxerolíu á óvenjulegan hátt og ekki sem meðal við harðlífi. En laxerolían hefur þvílíkt verið að slá í gegn hjá fjölda fólks á You Tube og Tik Tok að undanförnu.
„Þetta er algjör undraolía myndi ég segja. Hún er sem sagt bólgueyðandi á liðverki, á bólgur í kviðnum, meltingarkerfinu og tengt móðurlífinu líka,“ segir Kolbrún í samtali við Völu Matt í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.
„Þegar maður ber þessa olíu á húðina þá dregur hún út eiturefnin. Laxerolían er mun þykkari en aðrar olíur og virðist draga enn meiri eiturefni út. Svo er hún ofboðslega nærandi. Ég nota hana á andlitið og því hún er svo þykk þá set ég smá ólífuolíu út í. Ég set hana á allt andlitið mitt og set síðan heitan þvottapoka yfir. Það sem hitinn gerir er að hann opnar húðina þannig að það hreinsast allt miklu betur. Ég er í rauninni að hreinsa húðina á kvöldin með þessu og þetta er bara uppáhalds rútínan mín á kvöldin,“ segir Kolla en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.