„Guð minn góður hvað það eru margir takkar, þetta er eins og geimskip!“ segir Jóna Margrét sú allra hressasta í samtali við Vísi. Jóna er í þessari viku í læri hjá þaulreyndu útvarpsfólki og mætir galvösk til leiks í loftið strax í næstu viku.
Hana þekkja flestir úr Idolinu þar sem hún sló í gegn og hafnaði í öðru sæti. Jóna segir það hafa legið beinast við að leggja útvarpið næst fyrir sig og segist hlakka til að bæta þeirri reynslu í sarpinn.
„Þetta hefur alltaf verið draumurinn og mér fannst ég ekki geta gert annað en slegið til,“ segir Jóna. Hún segir að sér hafi gengið vel að læra á allt saman, enda sé hún fljót að læra.
„Ég sit til dæmis núna inni í stúdíói að læra og fylgjast með. Ég er eins og litli frændinn sem fékk að koma með í vinnuna,“ segir Jóna hlæjandi. Hún segist fyrst og fremst lofa gleði og stuði þegar hún mætir í loftið í næstu viku. „Og góðri tónlist! Ekki gleyma því!“