Enski boltinn

Segir Arsenal sí­fellt betra en vill engar á­sakanir um sál­fræði­stríð

Sindri Sverrisson skrifar
Pep Guardiola er hrifinn af því sem Mikel Arteta, hans gamli aðstoðarmaður, er að gera hjá Arsenal.
Pep Guardiola er hrifinn af því sem Mikel Arteta, hans gamli aðstoðarmaður, er að gera hjá Arsenal. Getty/Julian Finney

Pep Guardiola, stjóri Manchester City, vill ekki vera sakaður um neinn sálfræðihernað (e. mind games) en segir að Arsenal sé sífellt að verða betra lið undir stjórn Mikels Arteta. Liðin mætast í sannkölluðum stórleik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

„Þeir verða betri með hverju árinu, og breiddin meiri. Þetta verður betra og betra á hverri leiktíð,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í dag, um Arsenal-liðið. Hann var spurður með hvaða hætti sérstaklega Arsenal, sem varð að horfa á eftir titlinum til City á síðustu leiktíð, væri að þróast í rétta átt:

„Þið getið spurt hann [Mikel Arteta] því ef ég segi eitthvað þá verð ég sakaður um sálfræðihernað eða eitthvað þannig. Ég hef alltaf haft mikið álit á honum og hans liði. Bæði árin hafa þeir verið nálægt þessu en við höfum verið svo sterkir líka, og erum enn sterkir,“ sagði Guardiola sem var með Arteta sem aðstoðarmann á sínum tíma.

Þegar Guardiola var bent á að hann kynni nú alveg sín tök á sálfræðistríði, til að trufla andstæðingana, þvertók hann fyrir það: „Nei, ég er ekki góður í því.“

De Bruyne mögulega með gegn Arsenal

Spánverjinn sagði mögulegt að Kevin de Bruyne yrði með í stórleiknum, þrátt fyrir að hafa meiðst lítillega í nára í vikunni.

„Honum líður aðeins betur í dag. Á morgun æfum við og sjáum til. Hann verður mögulega með,“ sagði Guardiola.

„Þetta hafa alltaf verið jafnir leikir síðustu ár. Við erum góðir en þeir líka. Þeir gera margt vel og eru heilsteypt lið, og þess vegna hafa þeir verið okkar helstu keppinautar síðustu ár.

En svona snemma á tímabilinu þá er ekkert meira undir en bara það hvernig stemningin verður næstu leiki. Hvað stigatöfluna varðar þá skiptir þetta ekki öllu máli. Það verður meira undir þegar við förum til London á seinni hluta tímabilsins,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×