Í dag var læknirinn, sem heitir Arne Bye, ákærður fyrir að notfæra sér stöðu sína sem læknir til þess að brjóta kynferðislega á fjölda kvenna sem voru skjólstæðingar hans.
Meintar nauðganir eru sagðar hafa átt sér stað á skrifstofu Bye, og að hann hafi tekið þær upp án vitneskju kvennanna.
Greint er frá málinu í Verdens gang en í frétt miðilsins segir að mikið myndefni sé á meðal sönnunargagna. Myndefnið nái aftur til ársins 2016 og sýni 159 konur í heildina. Í þeim megi meðal annars sjá það sem lögregla telji vera nauðganir, en læknirinn er sagður hafa snert og sett hluti í kynfæri kvennanna.
Þrátt fyrir að myndefnið nái aftur til 2016 telur saksóknari að brot Bye nái aftur til ársins 2004 og fram til ársins 2022.
Samkvæmt norska ríkissjónvarpinu neitar Bye sök. Samkvæmt lögmanni hans eru yfirheyrslur hjá lögreglu framundan. Þá segir hann að Bye hafi tekið myndefnið upp til að eiga sönnunargögn sem sýndu fram á sakleysi hans yrði hann sakaður um eitthvað. Því sé hann ánægður með að lögregla hafi lagt hald á myndböndin sem telji sex þúsund klukkustundir.
Í norska bænum Frosta búa um 2500 manns. Bærinn er skammt frá Þrándheimi.