Þetta kemur fram í frétt Rúv um málið.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins sendi fyrirspurn á Sigríði þar sem hún var innt eftir viðbrögðum við skoðanagrein Róberts Spanó, fyrrverandi forseta mannréttindadómstóls, sem birtist á Vísi þar sem hann sagðist ekki skilja niðurstöðu dómsmálaráðherra.
Sigríður segir í svarinu til Rúv að hún geti tekið undir röksemdir og ályktanir Róberts um að niðurstaða dómsmálaráðherra sé órökrétt. Það sé vegna þess að ráðherra hafi tekið undir öll efnisatriði sem hafi verið til grundvallar báðum þeim áminningum sem honum voru veittar á síðustu tveimur árum.
Hún segir einnig að hefði dómsmálaráðherra veitt vararíkssaksóknara tímabundna lausn frá störfum hefði mál hans verið rannsakað af nefnd sérfræðinga. Sú nefnd hefði upplýst hvort rétt væri að veita vararíkissaksóknara lausn eða láta hann taka aftur við embættinu. Þar vísar Sigríður í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Hún segir einnig við Rúv að í umfjöllun um mál Helga hafi lítið farið fyrir kjarna málsins: „að sökum stöðu vararíkissaksóknara sé tjáningarfrelsi hans settar verulegar skorður vegna kröfu um sjálfstæði og hlutleysi ákæruvaldsins.“