Í fréttatilkynningu þess efnis frá Landsvirkjun segir að um sé að ræða leyfi vegna vegagerðar innan framkvæmdasvæðis annars vegar og leyfi til uppsetningar vinnubúða hins vegar.
Útboð á vindmyllum á lokametrunum
Sveitarstjórnin hafi tekið framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar fyrir á fundinum og falið skipulags- og umferðarnefnd, ásamt umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd Rangárþings ytra, að vinna áfram að afgreiðslu umsóknarinnar.
Útboðsferli meðal vindmylluframleiðenda sé á lokametrunum og gert sé ráð fyrir að í októbermánuði verði ljóst hvaða vindmylluframleiðandi verður fyrir valinu.
Virkjanaleyfi liggur fyrir en hefur verið kært
Í ágúst gaf Orkustofnun út virkjanaleyfi fyrir Búrfellslund, þar sem fyrsta vindorkuver landsins á að rísa. Vindmyllurnar munu ná allt að 150 metra upp í loft sem er næstum tvöföld hæð Hallgrímskirkjuturns.
Talsvert hefur verið deilt um framkvæmdina og sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á dögunum að kæra virkjanaleyfið.
Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir sveitarfélögin á áhrifasvæði fyrirhugaðs vindmyllugarðs í Búrfellslundi verða fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni af framkvæmdunum.
Forstjóri Landsvirkjunar segir kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps á virkjanaleyfi Búrfellslundar aftur á móti geta tafið framkvæmir um tvö ár og skaðað samfélagið sem þurfi á orkunni að halda. Hreppurinn hafi ekkert með útgáfu framkvæmdaleyfis að gera og hafi ekki nýtt sér ítrekuð tækifæri til athugasemda.