Hátíðin átti að fara fram í þriðja skipti á útisvæðinu fyrir ofan Árbæjarlaug á laugardaginn. Birnir, Aron Can og Mammaðín eru meðal þeirra sem áttu að koma fram.
„Við fengum tilmæli frá lögreglunni og áttum gott samtal við þau og eftir það samtal ákváðum við að það besta í stöðunni væri að fresta þessu aðeins,“ segir Kristján Sturla Bjarnason einn skipuleggjenda Stíflunnar í samtali við fréttastofu.
„Og það voru allir sammála því. Þetta er auðvitað leiðinlegt en svona er þetta bara,“ segir Kristján Sturla.
Á Facebook viðburði stíflunnar stendur að tilgangurinn með hátíðinni sé að efla tónlistarmenninguna í úthverfum Reykjavíkur ásamt því að gefa ungu listafólki tækifæri á að koma fram.
„Þetta hefur alltaf gengið mjög vel og verið mjög skemmtileg hátíð. Þannig að við stefnum á að halda hana fljótlega, vonandi,“ segir Kristján Sturla.
Aukinn vopnaburður ungmenna hefur verið til umfjöllunar síðustu daga eftir að sautján ára stúlka lét lífið í stunguárás sextán ára pilts á menningarnótt. Fyrr í dag kynnti ríkisstjórnin hertar aðgerðir gegn vopnaburði ungmenna og hefur skipað starfshóp sem á að skila tillögum að aðgerðum á næstu dögum.