Mjaldurinn fannst úti fyrir Finnmörku í aprílmánuði 2019 og vakti þar beisli, sem hann hafði utan um sig, sérstaka athygli. Þótti beislið, sem á var letrað að tilheyrði Pétursborg í Rússlandi, benda til þess að mjaldurinn hefði verið þjálfaður af rússneska sjóhernum, mögulega til njósna.
Þessu héldu norskir sérfræðingar fram lengi vel, en Rússar gáfu lítið fyrir þær kenningar. Norskir fjölmiðlar fjölluðu síðar um það að mjaldurinn væri sennilega ekki njósnari, heldur hafi hann verið notaður við meðferð á andlega veikum börnum í Rússlandi. Því hafi hann verið einstaklega gæfur.
Nú greinir norski fjölmiðillinn VG frá því að Hvaldimir, frægasti mjaldur Noregs, sé nú dauður. Hann var dreginn upp á bryggju við Stavanger í dag en hann fannst við Risavika. Að sögn dýralæknis á enn eftir að rannsaka dánarorsök.
Hvaldimir sást víða í norskum fjörðum síðustu ár ævi hans eftir að hafa vakið heimsathygli. Lék hann listir sínar, leyfði fólki að klappa sér og synti eftir fiski.
Til umræðu kom að flytja Hvaldimir til Íslands til að auka lífslíkur.