Meginreglan sé að börn undir 18 ára aldri sem brjóti af sér séu vistuð á vegum barnaverndaryfirvalda. Í frétt RÚV segir að drengurinn hafi verið fluttur úr barnaverndarúrræðinu að Stuðlum til að tryggja öryggi hans. Drengnum hafi borist líflátshótanir.
Fram kom fyrr í dag að Héraðsdómur Reykjavíkur framlengdi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir drengnum til 26. september að beiðni lögreglu. Sautján ára stúlka er enn í lífshættu eftir árásina.
Í frétt RÚV segir að á Hólmsheiði sé hann vistaður í svokölluðu fjölskylduherbergi en samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna má ekki vista börn með fullorðnum.
„Það sem okkur ber að gera þegar börn eru hjá okkur er að tryggja að vistin sé eins lítið íþyngjandi fyrir barnið og mögulegt er,“ segir Páll í samtali við fréttastofu.
Þess vegna noti fangelsismálayfirvöld heimsóknaríbúð eða aðra staði í fangelsinu til að minnka innilokun á klefa.
„En jafnframt er það skilyrði að börn umgangist ekki fullorðna vistmenn í fangelsinu.“