Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, var sáttur með frammistöðu síns liðs í dag.
„Við vorum bara að spila helvíti fínt og náðum að leysa pressuna þeirra sem þeir voru að koma í mjög vel að mestu leyti. Svo bara það sem þeir eru góðir í, föst leikatriði og skyndisóknir, við náðum bara að loka helvíti vel á það.“
Er þetta í fimmta sinn á tímabilinu að Stjarnan heldur hreinu og hafa aðeins Blikar haldið oftar hreinu á tímabilinu. Árni Snær var sáttur með varnarleikinn í dag og segir mikilvægt að liðið virði þá vinnu sem leggja þarf á sig í varnarleik liðsins.
„Þetta snýst bara um að vera allir saman í þessu og bara virða varnarleikinn í þessu dóti, eins og við gerðum núna, bara að taka ábyrgð á sínum manni eða svæði í föstum leikatriðum eða annars staðar á vellinum. Hver og einn tekur ábyrgð og þannig virkar þetta bara.“

Eins og áður segir þá fleytti þessi sigur Stjörnunni upp um tvö sæti í deildinni og í hið eftirsótta sjötta sæti áður en deildin skiptist í tvennt. Árni Snær segist þó ekki mikið pæla í töflunni þó að sigurinn í kvöl hafi verið mikilvægur fyrir framhaldið.
„Hann var mjög mikilvægur án þess þó, allavegana ég er ekki mikið að pæla í stöðutöflunni. Það eru tveir leikir eftir og ef við fáum alvöru frammistöðu úr þeim og þrjú stig ofan á það þá verðum við bara sáttir. Síðan bara pælum við í töflunni eftir 22 leiki, ég er allavegana þannig.“
„Við erum ekkert að pæla í öðru dæmi, við erum bara að pæla í sjálfum okkur. Sama á móti hverjum við erum og hvenær sem leikurinn er þá reynum við bara að spila alveg eins. Svo bara pælum við í stöðutöflunni eftir 22. umferðir og svo aftur eftir 27. umferðir. Við reynum bara að spila okkar leik,“ sagði Árni Snær að lokum.
