Blakkonurnar Jordan Larson og Micha Hancock unnu silfurverðlaun með bandaríska blakliðinu á leikunum en þær höfðu báðar unnið gullið á síðustu leikum. Larson var að vinna sín fjórðu Ólympíuverðlaun á ferlinum.
Þær voru samferða í Uber bíl á leiðinni heim á hótel í París eftir að hafa haldið upp á árangurinn á leikunum með öðrum í bandaríska Ólympíuliðinu.
Hancock sagði frá bílslysinu á samfélagsmiðlum og birti mynd af þeim tveimur. Þar má sjá að þær slösuðust talsvert í andliti. Þar má sjá þær með skurði og bólgu í kringum annað augað. Hancock er þó augljóslega meira slösuð.
Uber bílstjórinn þeirra hafði þarna keyrt á staur með þessum afleiðingum.
Hancock sagði að það myndi taka hana nokkra mánuði að jafna sig á meiðslunum. Hún þakkaði fyrir það að hafa haft Larson með sér og að þetta hafi ekki endað verr.