Hinsegin dagar hafa staðið yfir síðan á þriðjudaginn og nær hátíðin hámarki sínu í gleðigöngunni sem verður á sínum stað á morgun. Gangan er í senn kröfuganga hinsegin fólks, sem kallar eftir jafnrétti, vitundarvakningu og útrýmingu mismununar, sem og vettvangur til að fagna því sem hefur unnist í baráttunni. „Baráttan er ekki búin. Munum samt að alls konar er unnið en ýmislegt eftir,“ segir Anna Eir Guðfinnudóttir göngustýra.
Hún segir gönguna í ár verða með sama sniði og verið hefur. „Um að gera að mæta og koma og vera með. Gangan byrjar klukkan tvö og tekur um klukkutíma og endar í Hljómskálagarðinum á útitónleikum,“ segir Anna.
Gönguleiðin verður sú sama og verið hefur. Lagt er af stað frá Hallgrímskirkju þaðan sem gengið er niður Skólavörðustíg og þá eftir Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuvegi að Skothúsvegi þar sem gangan endar. Þá halda atriði áfram inn Sóleyjargötu og þaðan inn í Hljómskálagarðinn þar sem tónleikarnir fara fram.
Anna á von á að þátttaka í göngunni verði með besta móti í ár. „Bara mjög góð, svipuð og í fyrra. við erum með fjörutíu og tvö eða þrjú atriði þannig vonandi bara mjög löng og stór ganga,“ segir Anna.

Götulokanir taka gildi strax klukkan átta í fyrramálið og standa yfir til klukkan sex annað kvöld, en nálgast má nánari upplýsingar um gönguna og götulokanir á heimasíðu hinsegin daga.
Spurð hvort eitthvað sé vert að hafa í huga fyrir þau sem hafa hug á að kíkja niður í bæ og fylgjast með göngunni svarar Anna: „Sólarvörn, vatn næring og gleði,“ og minnir á að það sé fínasta veðurspá fyrir morgundaginn.