Árásarmaðurinn heitir Axel Rudakubana. Dómari úrskurðaði að heimilt væri að birta nafn hans þrátt fyrir að bresk lög kveði á um að ekki megi nafngreina ungmenni yngri en átján ára. Sky-fréttastöðin segir að Rudakubana verði átján ára eftir sex daga. Óvanalegt sé að nafngreining sé leyfð.
Áður hefur komið fram að Rudakubana sé fæddur í Cardiff í Wales en hann hefur verið búsettur í þorpinu Banks nærri Southport. Rangar upplýsingar um nafn og uppruna hans hafa verið í dreifingu og meðal annars orðið kveikjan að óeirðum hægriöfgamanna í Southport og London í vikunni.
Dómarinn útskýrði ákvörðun sína þannig að ef nafn Rudakubana yrði ekki birt gerði það fólki kleift að dreifa upplýsingafalsi.
„Að halda áfram að koma í veg fyrir fullan fréttaflutning hefur þann ókost að leyfa öðrum að dreifa röngum upplýsingum í tómarúmi,“ sagði Andrew Menary, dómari í Liverpool.
Rudakubana hefur þegar verið ákærður fyrir að myrða þrjár ungar stúlkur á aldrinu sex til níu ára. Fyrir dómi í morgun kom fram að hann hefði notað sveigðan eldshúshníf til þess að ráðast á börn á dansskemmtun. Sakborningurinn á að koma aftur fyrir dómara síðar í dag.
Tvö börn sem særðust í árásinni á mánudag hafa nú verið úrskrifuð af Alder Hey-barnasjúkrahúsinu en fimm önnur eru til meðferðar þar. Í tilkynningu frá sjúkrahúsinu kom fram að börnin væru öll í stöðugu ástandi.
Fleiri en hundrað manns voru handteknir í uppþotunum vegna hnífaárásarinnar í London í gær. Óeirðarseggirnir kýlu lögreglumann meðal annars í brjóstkassann og spörkuðu í annan ítrekað samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í London.