Víkingur hefur nú fengið sjö stig í síðustu þremur leikjum og er í 4. sæti deildarinnar. FH, sem hefur tapað fjórum leikjum í röð, er í 5. sætinu.
Eftir 21 mínútu í votviðrinu í Víkinni náði FH forystunni þegar Elísa Lana Sigurjónsdóttir skoraði fjórða mark sitt í sumar.
Á 34. mínútu tvöfaldaði Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir forystu FH-inga þegar hún skoraði eftir sendingu frá Thelmu Karenu Pálmadóttur.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks minnkaði Linda Líf muninn fyrir Víking í 1-2 þegar hún fylgdi eftir skoti Bergþóru Sólar Ásmundsdóttur sem Aldís Guðlaugsdóttir varði.
Strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks jafnaði Shaina metin í 2-2 þegar hún skoraði gegn sínum gömlu félögum í FH.
Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka skoraði Shaina svo sigurmark Víkinga eftir sendingu frá Emmu Steinsen Jónsdóttur. Lokatölur 3-2, Víkingi í vil og þær rauðu og svörtu búnar að koma sér vel fyrir í efri hluta deildarinnar.