Íranskir ríkismiðlar, sem endurspegla afstöðu stjórnvalda, segja Ísraelsmenn ábyrga og að aftakan muni fresta vopnahléi á Gasa um marga mánuði. Þá sé einsýnt að það kalli á hefndaraðgerðir frá hinum ýmsu hópum, sem njóta stuðnings Íran.
Ísraelar hafa ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér en vitað er að stjórnvöld þar í landi hafa staðið fyrir banatilræðum í Íran, aðallega í tengslum við kjarnorkuáætlun landsins.
Drápið á Haniyeh hefur þegar verið gagnrýnt af háttsettum embættismanni Palestínsku heimastjórnarinnar, Hussein al-Sheikh, sem hefur þó verið gagnrýninn á Hamas. Sakaði hann banamenn Haniyeh um heigulshátt.
Add to this that the timing, the inauguration of a new president, dares Iran to retaliate which forces decision and course of action that Tehran likely didn’t anticipate or want https://t.co/5qWULS9Tle
— Vali Nasr (@vali_nasr) July 31, 2024
Öryggisráð Íran hefur fundað vegna málsins en það þykir meðal annars vekja spurningar um öryggi æðstu ráðamanna landsins. Leiðtogi Íran, Ayatollah Ali Khameini, fundaði með Haniyeh á þriðjudag og fleiri ráðamenn hittu hann aðeins klukkustundum áður en hann var myrtur.
Fregnirnar koma á hæla árásar Ísrael á úthverfi Beirút, þar sem Fuad Shukr, háttsettur leiðtogi Hezbollah hafðist við. Talsmenn Hezbollah hafa staðfest að hann hafi verið á svæðinu þegar árásin var gerð en ekki að hann hafi fallið. Leitað sé í rústunum.
Yfirvöld í Líbanon hafa lýst furðu vegna árásarinnar en þau höfðu greint frá því í gær að hafa verið fullvisuuð um að Ísrael myndi ekki svara árás síðustu helgar, þar sem tólf börn létust á Gólan-hæðum, með árás á höfuðborgina.
Stóðu vonir til þess að Ísraelsmenn myndu svara með hófsömum hætti og Hezbollah, sem hefur neitað að hafa staðið fyrir árásinni á Ísrael, sömuleiðis. Fyrirheit um að menn haldi aftur af sér þykja nú orðin tóm.