Sport

Bón­orð í Ólympíuþorpinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pablo Simonet bað kærustu sinnar Pilar Campoy í Ólympíuþorpinu í París í gær.
Pablo Simonet bað kærustu sinnar Pilar Campoy í Ólympíuþorpinu í París í gær. @olympics

Það var mikil gleði í herbúðum argentínska Ólympíuhópsins í gær þar sem rómantíkin réði svo sannarlega ríkjum.

Pablo Simonet fór þá niður á hnén og bað kærustu sinnar Pilar Campoy í Ólympíuþorpinu í París. Þetta er fyrsta bónorðið á þessum Ólympíuleikum en kannski verða þau fleiri.

Allir liðsfélagar þeirra beggja voru á svæðinu sem gerði þessa stund enn skemmtilegri. Það var líka sannkölluð fjölskyldustemmning því tveir bræður Pablo eru einnig að keppa á leikunum.

Pablo og Pilar hafa verið saman frá árinu 2015. Þau voru bæði í Ólympíuliði Argentínu á leikunum í Ríó fyrir átta árum en hún missti af síðustu leikum. Nú þegar þau voru bæði mætt á ný þá greip Pablo tækifærið.

Pablo Simonet spilar með argentínska handboltalandsliðinu. Hann er 32 ára vinstri skytta sem leikur með spænska liðinu BM Puente Genil. Þetta verða hans þriðju Ólympíuleikar því hann var einnig með í Río 2016 og í Tókýó 2021. Simonet hefur leikið 117 landsleiki og skoraði í þeim 252 mörk. Bræður Pablo, Diego og Sebastián spila einnig með argentínska handboltalandsliðinu.

Pilar Campoy er 33 ára gömul og spilar með argentínska hokkílandsliðinu. Hún spilar með Hacoaj í heimalandinu. Þetta eru hennar aðrir Ólympíuleikar því hún var einnig með í Ríó 2016. Campoy hefur spilað 96 landsleiki og leikur því væntanlega sinn hundraðasta leik á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×