Körfuknattleiksdeild Hattar greinir frá þessu í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum. Jóhann Árni, sem var aðstoðarþjálfari Grindavíkur á síðasta tímabili, átti að hefja störf fyrir austan í næsta mánuði. Núna er hins vegar ljóst að ekkert verður af því.

„Jóhann Árni Ólafsson hefur óskað eftir lausn á samningi sínum við körfuknattleiksdeild Hattar af persónulegum ástæðum. Hann mun því ekki hefja störf hjá okkur í ágúst eins og ráðgert hafði verið sem eru afar mikil vonbrigði. Undirbúningur vetrarins hjá deildinni hefur því tekið óvænta stefnu og leitum við að nýjum þjálfara logandi ljósi þessa dagana,“ segir í yfirlýsingu Hattar.
Körfuknattleiksdeild félagsins segir stuðningsmönnum sínum þó ekki að örvænta. Liðið muni koma inn í komandi tímabil af fullum krafti.
„Algjörlega staðráðin í því að halda áfram því frábæra starfi sem við höfum haldið úti síðustu vetur. Viðar Örn Hafsteinsson verður áfram hjá okkur ásamt okkar fasta kjarna síðasta vetrar og því algjörlega ástæðulaust að hafa nokkrar áhyggjur.
Ekki náðist í Jóhann Árna við vinnslu fréttarinnar.
Yfirlýsing Hattar í heild sinni:
Jóhann Árni Ólafsson hefur óskað eftir lausn á samningi sínum við körfuknattleiksdeild Hattar af persónulegum ástæðum. Hann mun því ekki hefja störf hjá okkur í ágúst eins og ráðgert hafði verið sem eru afar mikil vonbrigði.
Undirbúningur vetrarins hjá deildinni hefur því tekið óvænta stefnu og leitum við að nýjum þjálfara logandi ljósi þessa dagana.
Örvæntið þó eigi - við munum koma inn í þennan vetur af fullum krafti algjörlega staðráðin í því að halda áfram því frábæra starfi sem við höfum haldið úti síðustu vetur.
Viðar Örn Hafsteinsson verður áfram hjá okkur ásamt okkar fasta kjarna síðasta vetrar og því algjörlega ástæðulaust að hafa nokkrar áhyggjur.
Þeir sem hafa sagt skilið við okkur frá síðasta tímabili eru: Einar Árni, Sæþór Elmar, Gísli Þórarinn og Deontaye Buskey. Aðrir úr kjarnanum munu halda ótrauðir áfram og fleiri eru einnig væntanlegir
Við munum flytja lokafréttir af leikmanna og þjálfaramálum næsta vetrar fljótlega.