Körfubolti

Bronny James hefur klikkað á öllum skotunum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bronny James Jr. í níunni hjá Los Angeles Lakers en hann hefur enn ekki náð að skora níu stig í einum leik í Sumardeildinni.
Bronny James Jr. í níunni hjá Los Angeles Lakers en hann hefur enn ekki náð að skora níu stig í einum leik í Sumardeildinni. Getty/Thearon W. Henderson

Los Angeles Lakers valdi Bronny James, tvítugan son LeBron James, í nýliðavalinu á dögunum en það er ekki hægt að segja að strákurinn sé að heilla marga með frammistöðu sinni í Sumardeild NBA.

Bronny var valinn númer 55 í nýliðavalinu og LeBron James fékk því ósk sína uppfyllta um að fá að spila við hlið sonar síns í NBA. Hvort að strákurinn fái margar mínútur er þó langt frá því að vera öruggt.

Hann er nefnilega ekki skila merkilegri frammistöðu í Sumardeildinni.

Einn af kostum Bronny James átti að vera góð nýting hans fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hann hefur hins vegar klikkað á öllum tólf þriggja stiga skotum sínum í Sumardeildinni og er með aðeins 23 prósent skotnýtingu samtals. Bara sex skot hafa farið niður úr 26 tilraunum.

Í síðasta leik skoraði hann átta stig og hitti úr 3 af 14 skotum sínum. Hann reyndi átta þriggja stiga skot án árangurs. Lakers tapaði leiknum 99-80 á móti Houston Rockets. Bronny var með fimm fráköst og enga stoðsendingu á 27 mínútum.

Í fyrsta leiknum sem tapaðist 108-94 á móti Sacramento Kings var Bronny með fjögur stig á 21 mínútu auk þess að taka tvö fráköst og gefa tvær stoðsendingar.

Í öðrum leiknum sem tapaðist 80-76 á móti Miami Heat var Bronny með þrjú stig á 29 mínútu auk þess að taka fimm fráköst og gefa þrjár stoðsendingar.

Hann er því samanlagt í þremur leikjum með 15 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar á 77 mínútum í þessum þremur leikjum sínum í Sumardeildinni. Ef við uppfærum þær tölur á 30 mínútur þá eru það 5,8 stig, 4,7 fráköst og 1,9 stoðsendingar.

Hann er heldur ekki að spila við bestu leikmenn NBA heldur við nýliða og leikmenn sem dreymir um að komast að í NBA deildinni. Það er þvi erfitt að vera bjartsýnn fyrir hönd NBA ferils Bronny James þessa dagana.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×