Innlent

Klessti bíl og eig­andinn kom í jakka einum fata á vett­vang

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Hlíðahverfi í Reykjavík.
Atvikið átti sér stað í Hlíðahverfi í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Maður sem ók bíl undir áhrifum áfengis, klessti honum á kyrrstæðan aftanívagn, og kom sér af vettvangi hlaut dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum. Honum er gert að greiða 240 þúsund króna sekt til ríkissjóðs eða sæta átján daga fangelsi. Jafnframt var hann sviptur ökuréttindum.

Atvikið sem málið varðar átti sér stað í byrjun janúar á þessu ári við Hlíðaskóla í Hamrahlíð í Reykjavík.

Tveir einstaklingar urðu vitni að atvikinu og sögðu manninn hafa klesst bílinn og fest hann, síðan losað hann, en svo gengið af vettvangi.

Í kjölfarið kom kona sem sagðist vera eigandi bílsins. Í frumskýrslu lögreglu segir að hún hafi verið skólaus, í jakka einum fata og með blautt hár. Hún hafi verið í miklu uppnámi og bölvað manninum þar sem hún skyldi ekki hvers vegna hann hefði tekið bílinn svona ölvaður.

Konan sagði manninn hafa verið að gista heima hjá sér, en þau væru ekki í smabandi. Hann hefði stolist á áfengi hennar og tekið bílinn í leyfisleysi. Hún hafi svo verið í sturtu þegar maðurinn bankaði uppá og spurt hvort bíllinn kostaði mikið vegna þess að hann hafi klesst hann og ætlað að borga fyrir viðgerð. Þá hafi hún hlaupið á vettvang.

Lögreglan fór í kjölfarið á heimili konunnar og þar hafi maðurinn setið við tölvu með tónlist í gangi með bjór af gerðinni Bóndi við hönd. Maðurinn var handtekinn þar, en hann vildi sjálfur meina að hann hafi einungis fengið sér áfengi eftir aksturinn. Á lögreglustöð blés hann í áfengismæli og þá voru tekin blóðsýni úr honum. Þau sýndu að hann hafði verið undir áhrifum.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en konan sem gaf einnig skýrslu bar vitni um að hann hefði vissulega verið ölvaður. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri hafið yfir skynsamlegan vafa aðhann hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn, en vísað var í niðurstöðu rannsóknarstofu í lyfjafræði.

Líkt og áður segir er manninum gert að greiða 240 þúsund krónur eða sitja í fangelsi í átján daga. Þá er hann sviptur ökuréttindum í tvö og hálft ár og er gert að greiða tæplega 700 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×