Víkingur gerði 0-0 jafntefli við Shamrock Rovers í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.
Víkingur stillti mjög sóknarsinnuðu liði upp, frjálsir og flæðandi í sínum aðgerðum. Flestallir út um allt, skemmtilegt uppspil og ógnuðu mikið í hlaupum aftur fyrir vörnina. Yfirmönnuðu kantana, sérstaklega hægri kantinn sem var síhættulegur. Danijel Dejan Djuric á vinstri kantinum komst ekki eins vel inn í leikinn.

Víkingar mun betri aðilinn í upphafi og virtust ætla að taka forystuna snemma en Shamrock Rovers unnu sig vel inn í leikinn og voru virkilega þéttir varnarlega, buðu upp á lítið sóknarlega samt.
Mjög agaðir og sýnilega sáttir með að halda út jafntefli, voru strax byrjaðir að tefja og hægja á leiknum í fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur fór að nær öllu leyti fram á vallarhelmingi Shamrock Rovers, Víkingar í stórsókn en ekkert stórhættulegri endilega, áttu erfitt með að finna færi og oftar en ekki endaði boltinn í hornspyrnu sem gestirnir skölluðu burt.


Það gerðist svo eftir áttatíu mínútna leik að gestirnir urðu manni færri, hægri vængbakvörðurinn Darragh Nugent rekinn af velli.
Víkingar sáu sér gott til glóðarinnar og sóttu á mörgum mönnum undir lokin. Of mörgum mögulega því eftir misheppnaða sendingu slapp framherjinn Johnny Kenny einn í gegn og fékk hættulegasta færi leiksins, en lyfti boltanum yfir markið.
Víkingar gerðu allt sem þeir gátu til að setja sigurmarkið í uppbótartíma en hvað sem þeir gerðu vildi boltinn ekki inn. Niðurstaðan markalaust jafntefli.

Atvik leiksins
Víkingar voru grátlega nálægt því að komast marki yfir strax á 10. mínútu. Gunnar Vatnhamar með skalla eftir hornspyrnu sem var varinn í stöngina, Erlingur Agnarsson fylgdi eftir en potaði boltanum líka í stöngina.

Stemning og umgjörð
Smekkfullt í Víkinni, uppselt á Meistaradeildarkvöldi. Frábær stemning á pöllunum, gott grill og veglegar veigar. Allt eins og það á vera. Eitthvað um fimmtíu Írar létu líka sjá sig og létu heyra vel í sér, skemmtilegt.

Dómarar [6]
Norskt teymi á vellinum, Þjóðverjar í VAR herberginu. Hefðu vel mátt hafa meiri stjórn á leiknum og ekki leyfa Shamrock Rovers að komast upp með að hægja svona mikið á hlutunum. Tóku aðeins á því undir lokin og gáfu markmanninum gult en það hefði átt að gerast löngu fyrr.
Hárrétt og vel gert að reka Darragh Nugent af velli. Var á gulu og henti sér niður, leikaraskapur og seinna gula á loft.
