Innlent

Fundu sau­tján poka af ó­nýtum kanna­bis­plöntum og úr­gangi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Pokarnir fundust á Krýsuvíkurvegi. Mynd tengist frétt ekki beint.
Pokarnir fundust á Krýsuvíkurvegi. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann 26. júní síðastliðinn leifar af kannabisræktun við Krýsuvíkurveg nálægt Bláfjallavegi. Þar fundust sautján svartir ruslapokar fullir af mold, áburði, úrgangi og ónýtum kannabisplöntum. Efnunum hefur verið fargað og er málinu lokið af hálfu lögreglunnar.

Skúli Jónsson, stöðvarstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði, segir að ekki hafi verið um neitt stórmál að ræða. „Við fengum tilkynningu þarna um sautján poka af fíkniefnaplöntum. Lögregla fer á staðinn og þá er þetta bara mold með einhverjum ónýtum leifum af plöntum,“ segir Skúli.

Þarna hafi einhver greinilega verið að losa sig við það sem hann hafði notað til ræktunar. Starfsmenn Hafnafjarðarbæjar hafi verið kallaðir til og plönturnar teknar.

Skúli segir engar vísbendingar fyrir hendi um það hver gæti hafa átt pokana. Úrganginum hafi verið fargað og málinu sé lokið af hálfu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×