Hjálmar er greinilega ósáttur við það hvernig stjórn BÍ hefur tekið á málinu en í tilkynningu til félagsmanna telur hún heppilegra að ljúka málinu strax fremur en að kæra Hjálmar vegna óreiðu í bókhaldsmálum.
Eftir niðurstöður úttektar KPMG á tilteknum færslum í bókhaldi BÍ, sem kynnt var félagsmönnum á aðalfundi í apríl síðastliðinn, hafi stjórn félagsins óskað eftir lögfræðiáliti frá Logos lögfræðiþjónustu um mögulega refsiábyrgð Hjálmars vegna háttsemi hans í starfi. Lögmaður Logos, sem sé sérfræðingur í málaflokknum, hafi byggt minnisblað sitt á úttekt KPMG og þeim ábendingum sem þar komu fram við skoðun á gögnum félagsins.
Hjálmar hefur sent Vísi grein til birtingar þar sem hann gefur lítið fyrir þetta en greinin er undir yfirskriftinni „Hátt reitt til höggs“ en þar segir hann að ekki hafi komið sér á óvart að stjórnin hafi ákveðið að kæra sig ekki fyrir brot í starfi framkvæmdastjóra félagsins.
„Það stafar einfaldlega af því að það hafa aldrei verið efni til þess að einu eða neinu leyti. Þvert á móti þjónaði ég félaginu af einstakri trúmennsku, þó ég segi sjálfur frá, öll þau 35 ár sem ég kom að trúnaðarstörfum fyrir félagið, með einum eða öðrum hætti. Hagur félagsins hefur blómgast með einstökum hætti á þessum tíma, ekki síst síðustu rúm 20 árin sem ég var framkvæmdastjóri félagsins,“ segir í grein Hjálmars.
Hann segir að athugun á bókahaldi félagsins síðastliðinna tíu ára hafi engu skilað, þegar upp sé staðið, sú sé staðreynd málsins.
„Öllum atriðum hefur verið svarað með fullnægjandi hætti, þó reynt sé að láta það líta öðru vísi út til að réttlæta þann fjáraustur sem þessi aðför að æru minni hefur kostað. Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús!“