Á þriðja tug manna voru handeknir í þágu rannsóknar máls er snýr að skipulagðri brotastarfsemi, innflutningi og sölu og dreifingu á fíkniefnum hér á landi, peningaþvætti og vopnalagabrotum.
Flestir sakborninganna voru handteknir í aðgerðum lögreglu um miðjan apríl, en þá stóð hópurinn fyrir komu tveggja manna sem fluttu fíkniefni til landsins með skemmtiferðaskipi. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru efnin falin inn í hliðum steypts eldhúspotts.
Samkvæmt heimildum DV eru þau sex kíló af amfetamíni og kókaíni, sem lögregla lagði hald á í aðgerðunum, aðeins lítill hluti af skipulagðri brotastarfsemi hópsins. Fullyrt er að brotin hafi staðið yfir í nokkur ár.
Segja áttræðan karlmann einn af sakborningum
Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild, segir nokkra úr hópi sakborninga hafa komið við sögu lögreglu áður. Hópurinn samanstandi af konum og körlum á ýmsum aldri.
Þetta er breiður hópur, það er bara þannig
Lögregla vill að öðru leyti lítið gefa upp um málið fyrir utan það sem fram kom í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í morgun. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að þeir sem sitji í gæsluvarðhaldi séu íslenskir karlmenn.
DV greinir frá því að þau yngstu séu rúmlega þrítug og þau elstu rétt innan við fimmtugt, fyrir utan einn karlmann sem er að verða áttræður.
„Fólkið er sagt vera friðsamt og dannað fjölskyldufólk sem hafi flest leiðst út í þessa ólöglegu starfsemi vegna fjárhagserfiðleika“, segir á vef Dv.
Búast má við að ákæra verði gefin út á næstu dögum þar sem hámarks leyfilegur gæsluvarðhaldstími rennur út næstkomandi þriðjudag.