Eyþóra er 25 ára gömul hollensk-íslensk fimleikakona sem á íslenska foreldra en er fædd og uppalin í Hollandi. Hún hefur keppt alla tíð fyrir Holland og fór bæði á Ólympíuleikana í Ríó 2016 og í Tókýó 2021.
„Ólympíudraumur minn í París 2024 er úti,“ skrifaði Eyþóra á síðu sína.
„Í dag á æfingu fyrir forkeppni Ólympíuleikanna þá lenti ég í heimskulegu slysi þegar ég ætlaði að stökkva af jafnvægisslánni,“ skrifaði Eyþóra.

„Þetta varð til þess að ég fótbraut mig á fjórum stöðum. Næst á dagskrá er aðgerð í næstu viku til þess að laga þetta,“ skrifaði Eyþóra.
„Því miður hafa verið margar lægðir í lífi mínu að undanförnu. Ég vona að þessi verði sú síðasta. En með þessu er ljóst að draumur minn um að keppa á ÓL París 2024 er úti. Greinilega átti þetta ekki að gerast,“ skrifaði Eyþóra.
„Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur stutt mig á þessu ferðalagi. Ég veit að ég hefði aldrei komist svona langt án ykkar allra. Ég vil líka óska öllum stelpunum góðs gengs í forkeppni Ólympíuleikanna,“ skrifaði Eyþóra.
Eyþóra varð í níunda sæti í fjölþraut á Ólympíuleikunum í Ríó og í sjöunda sæti í liðakeppninni.
Á leikunum í Tókýó varð liðið í ellefta sæti en varð annar varamaður í úrslitin í fjölþraut eftir að hafa orðið í 36. sæti í undankeppninni.
Eyþóra vann bronsverðlaun með hollenska liðinu á Evrópukeppninni í fyrra en þá varð hún í sjötta sæti í fjölþrautinni.