Íslendingurinn særðist þegar naut réðst á hann í svokölluðu bous al carrer, þar sem nautum er sleppt á götur út. Hann fékk horn nautsins í lærið og var sagður hafa fengið stórt sár, en að litlu hefði mátt muna svo hornið hefði rofið slagæð mannsins.
Spænski fjölmiðillinn El Español greinir frá því að íslenski maðurinn, sem er 46 ára gamall, sé enn á sjúkrahúsi, en að ástand hans sé stöðugt.
Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is.
Atvikið átti sér stað í bænum Jávea sem er ekki langt frá ferðamannaborginni vinsælu Alicante. Myndband af atvikinu var birt á miðlinum Información.
Íslendingurinn hafi áhyggur af pilti sem lenti líka í nauti
Spænskir fjölmiðlar greina frá því í dag að svipað atvik hafi átt sér stað. Fimmtán ára piltur var fluttur á sama sjúkrahús og Íslendingurinn með áverka á baki eftir að hafa lent í nauti á bous al carrer-nautahlaupi.
Pilturinn var í framhaldinu fluttur á annan spítala vegna þess hve alvarlegir áverkar hans eru, en hann er sagður hafa misst mátt í fótunum. Óttast er að hann hafi orðið fyrir mænuskaða.
Staðarmiðill kenndur við Levante segir jafnframt að ástand Íslendingsins sé betra. Nú hafi hann hins vegar mestar áhyggjur af piltinum.
Þá bendir El Español á að í Valensíahéraði, þar sem Jávea-bærinn er staðsettur, hafi rúmlega þúsund manns særst og tveir látið lífið á sams konar viðburðum á síðasta ári.