Williams var gerður að launahæsta þjálfara deildarinnar þegar hann skrifaði undir hjá Pistons í júní í fyrra. Sex ár og 78 milljóna dollara samningur.
Gengi liðsins var hins vegar alveg skelfilegt á 2023-24 tímabilinu. Liðið vann aðeins 14 af 82 leikjum og setti meðal annars nýtt NBA met með því að tapa 28 leikjum í röð.
Trajan Langdon tók við nýverið sem nýr yfirmaður körfuboltamála hjá Pistons og hann var fljótur að losa sig við þjálfarann.
Félagið þarf samt sem áður að standa við samninginn og skuldar Williams því enn 65 milljónir dollara.
Þetta er annað skiptið á stuttum tíma þar sem Williams græðir á því að vera rekinn.
Phoenis Suns skuldaði honum tuttugu milljónir dollara þegar félagið rak hann í maí í fyrra.
Hann hefur þar þannig tryggt sér 85 milljónir Bandaríkjadala eða næstum því tólf milljarða íslenskra króna með því að vera látinn taka pokann sinn. Bæði félög munu borga honum þessar risaupphæð bara til að vera laus við hann.
Williams verður því atvinnulaus en seint blankur.