Sport

Vill ekki spila á Wimbledon því það gæti skemmt undir­búning fyrir Ólympíu­leikana

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nadal tók þátt á opna franska meistaramótinu á dögunum. Þar er spilað á leirvellinum Roland Garros líkt og á Ólympíuleikunum í sumar.
Nadal tók þátt á opna franska meistaramótinu á dögunum. Þar er spilað á leirvellinum Roland Garros líkt og á Ólympíuleikunum í sumar. Jean Catuffe/Getty Images

Tenniskappinn Rafael Nadal hefur ákveðið að draga sig frá keppni á Wimbledon mótinu sem hefst 1. júlí. Á Wimbledon er spilað á grasi og Nadal vill frekar setja sína orku í að æfa á leirvelli til að ná sem bestum árangri á Ólympíuleikunum í sumar. 

Nadal er auðvitað „konungur leirsins“ í tennis. Enginn í sögunni hefur náð jafn góðum árangri á leirvöllum og hann á sigurmetið í eftirfarandi mótum á leir; 14 sinnum unnið opna franska, 12 sinnum í Barcelona, 11 sinnum í Monte Carlo og 10 sinnum í Róm.

Það var tilkynnt í gær að hann tæki þátt á Ólympíuleikunum. Bæði í einliðaleik og svo verður hann með nýkrýndum meistara á opna franska, Carlos Alcaraz, í tvíliðaleik.

Nadal tilkynnti svo ákvörðun sína á samfélagsmiðlum í dag.

„Við teljum það best fyrir mig að skipta ekki um yfirborð og halda áfram að spila á leir þangað til. Þess vegna mun ég ekki taka þátt á Wimbledon. Það er leiðinlegt að missa af mótinu en ég mun spila á móti í Bastad í Svíþjóð. Mót þar sem ég hef spilað áður [og þrisvar sinnum unnið],“ skrifaði Nadal við færsluna.


Tengdar fréttir

Alcaraz kom, sá og sigraði Opna franska

Spánverjinn Carlos Alcaraz tryggði sér í dag sigur á Opna franska risamótinu í tennis er hann sigraði Þjóðverjann Alexander Zverev í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×