Erlent

Vill brottvísa hælis­leit­endum sem fremja al­var­lega glæpi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ummælin lét hann falla á þýska þinginu í morgun.
Ummælin lét hann falla á þýska þinginu í morgun. AP/Sabina Crisan

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði að vísa ætti úr landi hælisleitendum sem gerast sekir um hegningarlagabrot jafnvel þó þeir hafi komið frá Sýrlandi eða Afganistan.

Þessi ummæli lét hann falla á þýska þinginu í morgun og þykja til marks um aukna hörku hans í hælisleitendamálum. Fyrir nokkrum dögum síðan var lögreglumaður stunginn til bana af afgönskum karlmanni á mótmælum gegn „pólitísku íslam“ í Mannheim.

„Höfum eitt á hreinu. Það ærir mig að einhver sem sækir um vernd hér í okkar landi skuli fremja svo alvarlegan glæp,“ sagði Scholz. Guardian greinir frá.

„Slíkum glæpamönnum á að vísa úr landi, þó svo að þeir komi frá Sýrlandi eða Afganistan,“ bætti hann við við mikil fagnaðarlæti.

Lögregluþjónninn sem lést var 29 ára gamall og var að reyna að koma í veg fyrir að árásarmaðurinn réðist á mótmælendur. Árásarmaðurinn sótti um hæli í Þýskalandi árið 2013 og var synjað en honum var ekki brottvísað sökum ungs aldurs.

Þýskaland hætti brottvísunum til Afganistan í kjölfar valdatöku Talíbana árið 2021. Þýsk lög kveða á um að ekki megi brottvísa hælisleitendum til landa sem ekki eru talin örugg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×