Í skriflegu svari ráðuneytis er umsagnafjöldinn staðfestur. Ekki hefur náðst í Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra í dag. Annasamt er á þingi hjá henni að sögn aðstoðarmanns hennar Bjarka Hjörleifssonar.
Í síðustu viku tjáði Bjarkey fréttastofu að hún hafi ekki viljandi beðið fram yfir kosningar með ákvörðun sína. Ákvörðun „kunni að liggja fyrir í næstu viku“ sem nú er hálfnuð. Þá, þann 28. maí, var loks kallað eftir umsögnum stofnana og hagaðila.
Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofa og Matvælastofnun eru þær stofnanir sem skiluðu umsögnum. Þá skiluðu sveitarfélögin Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit umsögnum sömuleiðis.
Þeir hagaðilar sem skiluðu umsögn eru eftirfarandi:
- Samtök ferðaþjónustunnar
- Hvalaskoðunarsamtök Íslands
- Dýraverndarsamband Íslands
- Samtök um dýravelferð á Íslandi
- Náttúruverndarsamtök Íslands
- Landvernd
- Félag kvikmyndagerðarmanna
- Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
- Verkalýðsfélag Akraness
- Félag skipstjórnarmanna
- Félag vélstjóra og málmtæknimanna
- Hvalavinir
„Sjálfbær nýting auðlinda er það sem við erum að veita ráðgjöf um og að tryggja að hún sé í samræmi við það og þessi ráðgjöf sem við erum að veita í langreyði hún er mjög varfærin og við stöndum við hana,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar í samtali við fréttastofu í lok maímánaðar.
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir að með töfum matvælaráðherra á að veita leyfi til hvalveiða sé hann mögulega að skapa ríkissjóði milljarðatjón. Bjarkey kvaðst ósammála því, hún vilji gefa sér tíma í að fara yfir umsókn Hvals hf. þar sem veiðarnar standi á tímamótum.