Íslenski boltinn

Óli Jó skelli­hló eftir pillu Heimis til KSÍ: „Takk fyrir mig“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Heimir lét gamminn geysa í gær.
Heimir lét gamminn geysa í gær. Vísir/Hulda Margrét

Heimir Guðjónsson lét í ljós óánægju sína með skipulag Bestu deildar karla í fótbolta í viðtali eftir leik FH og Fram í deildinni í gær. Leiknum lauk með 3-3 jafntefli eftir að FH-ingar höfðu komist 3-0 yfir. Fyrrum kollegi hans hjá FH hafði gaman að.

FH á ekki næst leik fyrr en þann 18. júní, sem er rúmlega landsleikjahléið. Heimir var spurður hvort ekki væri erfitt fyrir hans menn að þurfa að bíða svo lengi eftir því að svara fyrir erfið úrslit gærkvöldsins.

„Það hefði verið fínt að fá leik strax en ég held að við þurfum að bíða í 18-19 daga. Ég bara skil ekki þetta mót og uppsetninguna á þessu móti. Þetta er bara þvæla,“ segir Heimir.

„Það er enginn úr íslensku deildinni í landsliðshópnum og alveg hægt að spila í landsleikjahléinu. Til dæmis Valur-Stjarnan og Breiðablik-Víkingur í gær, það er hægt að nota þetta hlé,“

„Það þýðir ekki að setja upp Íslandsmót og segja: „Við ætlum að byrja það 8. apríl“. Hvernig ætlum við að gera það? Takk fyrir mig,“ sagði Heimir sem sló þá á öxl fréttamanns og gekk út.

Klippa: Heimir sendir pillu á KSÍ og Óli Jó skellir upp úr

Lýsendur leiksins, þeir Aron Guðmundsson og Ólafur Jóhannesson, fyrrum kollegi Heimis, skelltu þá rækilega upp úr.

Ólafur sagðist þá að mörgu leyti vera sammála fyrrum leikmanni sínum og aðstoðarþjálfara.

Ummælin má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×