Anatolíj Maslov er 77 ára gamall eðlisfræðingu. Hann er einn af nokkrum áberandi vísindamönnum sem rússnesk stjórnvöld hafa ákært fyrir landráð á undanförnum árum. Dómstóll í Sankti Pétursborg sakfelldi Maslov á bak við luktar dyr. Reuters-fréttastofan segir að Maslov hafi haldið fram sakleysi sínu.
Maslov og tveir samstarfsmenn hans hjá Khristianovich-stofuninni í fræðilegri og hagnýtri aflfræði í Síberíu voru handteknir og ákærðir fyrir landráð í fyrra. Þeir unnu að kennilegum undirstöðum þróunar á hljóðfráum flugskeytum sem gætu ferðast á allt að tíföldum hljóðhraða og komist í gegnum loftvarnarkerfi.
Málin gegn vísindamönnunum voru skilgreind sem háleynileg og réttarhöldin yfir þeim hafa því verið lokuð almenningi og fjölmiðlum. Staðarfjölmiðill þar sem vísindastofnun mannanna er staðsett sagði á sínum tíma að þeir væru sakaðir um að afhenda Kína ríkisleyndarmál.
Annar eðlisfræðingur, Valeríj Golubkin, var handtekinn og sakaður um að afhenda ónefndu Atlantshafsbandalagsríki ríkisleyndarmál árið 2020. Hann var dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir landráð í fyrra.