Dómarar við stjórnsýsludómstól í Münster töldu nægar sannanir fyrir því að pólitísk markmið AfD stangist á við mannlega reisn ákveðinna þjóðfélagshópa og lýðræðið. Flokkun hans sem mögulega hættulegra öfgasamtaka væri því hæfileg og samræmdist bæði innlendum og evrópskum lögum.
„Það er tilefni til þess að gruna að minnsta kosti hluti flokksins vilji skipa þýskum borgurum af erlendum bakgrunni í annan flokk,“ skrifuðu dómararnir þegar þeir staðfestu niðurstöðu lægra dómstigs frá 2022, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
AfD hefur vaxið ásmegin á undanförnum árum og gæti jafnvel unnið sigra í nokkrum sambandslandskosningum í austanverðu Þýskalandi á þessu ári. Flokksmenn hafa ítrekað látið rasísk ummæli falla en undanfarið hefur flokkurinn einnig verið sakaður um að vera skálkaskjól fyrir njósnara Rússlands og Kína.
Þannig var starfsmaður Evrópuþingsmanns AfD handtekinn, grunaður um njósna um störf þingsins og kínverska andófsmenn í Þýskalandi fyrir kínverska kommúnistaflokkinn.
Aukin harka hefur færst í þýsk stjórnmál upp á síðkastið. Ítrekað hefur verið veist að stjórnmálamönnum og starfsmönnum flokka á allra síðustu dögum og vikum. Alvarlegasta árásin var á Evrópuþingmann Jafnaðarmannaflokks (SDP) Olafs Scholz kanslara í Dresen í byrjun mánaðar. Hann þurfti að gangast undir skurðaðgerð eftir að hann var barinn úti á götu þegar hann var að hengja upp kosningaveggspjöld.