Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir frá smíði hallarinnar og af væntanlegu útliti en hún hefur fengið nafnið Við Tjarnir. Hún rís í útjaðri Þórshafnar en skammt frá ná hin mögnuðu Austureyjargöng landi á Straumey.

Það var rétt fyrir jólin 2022, fyrir um sautján mánuðum, sem fyrsta skóflustungan var tekin. Byggingin rýkur upp þessa dagana.
Borgarstjórinn í Þórshöfn, Heðin Mortensen, er helsti forystumaður verkefnisins. Hann hefur einnig setið á Lögþinginu og gegnt formennsku í Íþróttasambandi Færeyja og er stoltur af árangri færeyskra íþróttamanna.

„Eins og þú veist höfum við staðið okkur vel í handboltanum. Við eigum einn besta leikmanninn í Þýskalandi í dag og í Svíþjóð,” segir Heðin.
Og hann vill að heimavöllur landsliðanna sé í Færeyjum.
„Í staðinn fyrir að spila heimaleiki okkar í Danmörku eða annars staðar; nei, það á að spila þá hér í Höfn, Þórshöfn,” segir borgarstjórinn.

Þjóðarhöll Færeyinga verður fjölnotahús fyrir flestar greinar inniíþrótta með sæti fyrir 2.700 áhorfendur á kappleikjum.
„Svo nýtist hún líka sem stór tónleikasalur og einnig fyrir ráðstefnur þar sem margir koma saman. Á tónleikum rúmar hún um fjögur þúsund manns. Svo þetta er mjög stór höll sem við erum ægilega stolt af.”
Kostnaður er áætlaður um fimm milljarðar króna og greiðir Þórshafnarbær um sextíu prósent en afgangurinn kemur frá Landsstjórninni, danska ríkinu og einkaaðilum.

„Hún verður fokheld núna á Ólafsvöku, það er 28. júlí í ár. Svo verkið skotgengur, gengur mjög hratt. Og fyrsti handboltaleikurinn verður í febrúar á komandi ári.
Við erum mjög spennt fyrir að geta tekið hana í notkun. Og bíðum spennt eftir að fá heimaleikina hingað. Og Íslendingum er velkomið að nota höllina líka. Að sjálfsögðu,” segir Heðin Mortensen, sem ber titilinn borgarstjóri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: