YLE greinir frá þessu. Áður en Vornanen tók sæti á þingi starfaði hann um árabil sem lögreglumaður og hefur hann sagst hafa leyfi fyrir byssunni.
Finnskir fjölmiðlar greindu frá því um helgina að slagsmál hafi brotist út fyrir utan skemmtistaðinn Ihku í Helsinki aðfararnótt laugardagsins. Er Vornanen þar sagður hafa mundað skammbyssu og hleypt skoti af í jörðina, en áður en hann hleypti af skotinu er hann einnig sagður hafa miðað henni á fólk. Lögreglan í Helsinki segist búa yfir myndefni af atvikinu úr öryggismyndavél.
Málið hefur vakið mikla athygli í Finnlandi og hefur umræða farið af stað um hve auðvelt er fyrir fólk að nálgast skotvopn.
Timo Vornanen situr sitt fyrsta kjörtímabil á þingi þeirra Finna en starfaði áður sem lögregluþjónn í meira en tvo áratugi.