Innlent

Búinn að skila inn undir­skriftum eftir „óvenjulegan“ frest

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viktor Traustason telur sig hafa náð lágmarksundirskriftum.
Viktor Traustason telur sig hafa náð lágmarksundirskriftum. Vísir/Vilhelm

Viktor Traustason skilaði í morgun inn forsetaframboði sínu í annað sinn eftir að hafa fengið aukafrest til að safna meðmælum. Formaður Landskjörstjórnar segir verulega ágalla hafa verið á meðmælalistum Viktors í fyrstu atrennu. Það sé óvenjulegt að veittur sé frestur þegar ágallar eru meiriháttar, eins og í tilfelli Viktors.

Viktor, ásamt 11 öðrum, skilaði inn forsetaframboði föstudaginn 26. apríl. Lágmark til framboðs er 1500 undirskriftir en aðeins 69 undirskriftir Viktors voru metnar gildar og landskjörstjórn úrskurðaði framboð hans því ógilt. Viktor kærði úrskurðinn og úrskurðarnefnd kosningamála komst að þeirri niðurstöðu í gær að taka ætti mál hans upp að nýju. Honum var í kjölfarið veittur viðbótarfrestur til þrjú í dag.

„Úrskurður Landskjörstjórnar var á því byggður að það hefðu verið meiriháttar ágallar á framboðinu,“ segir Kristín Edwald formaður Landskjörstjórnar. Hún bendir á að úrskurðarnefndin hafi verið sammála Landskjörstjórn um að meiriháttar ágallar væru á framboði Viktors.

„En úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að það skipti ekki máli hversu mörg meðmæli vantaði, það skyldi ávallt veita frest til að bæta úr. Það er ekki óvenjulegt að það sé veittur frestur þegar eru minniháttar ágallar en það er óvenjulegt að það sé veittur frestur þegar eru meiriháttar ágallar,“ segir Kristín.

Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar les upp úrskurði um þrettán forsetaframboð á mánudag. Vísir/Vilhelm

Viktor skilaði meðmælalistum inn í annað sinn í morgun. Hann nýtti frestinn í að fara aftur yfir undirskriftirnar sem hann safnaði á blaði og bæta við lögheimili fyrir hvern og einn.

„Undirskriftirnar sem ég setti lögheimili á voru 1480 samtals. Í þokkabót var ég síðan með þessar 69 sem voru rafrænar. Þannig að þegar ég slumpaði á: Já, ég held ég sé búinn að ná, þá var ég búinn að reikna það þannig út,“ segir Viktor.

Ertu vongóður? 

„Ég spái bara ekki alltof mikið í því.“

Landskjörstjórn fer nú yfir lista Viktors og sannreynir hvort undirskriftirnar séu gildar.

„Þetta er mikil nákvæmnisvinna sem þarf líka að vinna hratt, þannig að þetta er töluverð vinna að fara yfir pappírslistana, já,“ segir Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar. Niðurstöður ættu að liggja fyrir síðar i dag.


Tengdar fréttir

Úrskurðurinn felldur úr gildi

Landskjörstjórn braut á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þegar þeir úrskurðuðu að meðmælalisti forsetaframbjóðandans Viktors Traustasonar væri ógildur. Úrskurðarnefnd kosningamála hefur því fellt úrskurðinn úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×