Minnesota vann Phoenix 122-116 í gær og þar með einvígi liðanna 4-0. Þetta er fyrsti sigur liðsins í útsláttarkeppninni síðustu tvo áratugi. Anthony Edwards skoraði 40 stig, þar af 31 í seinni hálfleik, og tók níu fráköst, og Karl-Anthony Towns skoraði 28 stig og tók 10 fráköst.
Hjá Phoenix var Booker með heil 49 stig, sem er met hjá honum í útsláttarkeppni, og Kevin Durant bætti við 33 en það dugði ekki til.
Minnesota varð að klára leikinn án þjálfarans Chris Finch sem meiddist þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, þegar hans eigin leikmaður, Mike Conley, lenti illa á honum eftir brot Bookers.
Chris Finch tore his patellar tendon tonight on this play
— Dr. Evan Jeffries, DPT (@GameInjuryDoc) April 29, 2024
-He will need surgery likely between rounds
-Timeline of healing is 6 months but usually 1 year before feeling normal pic.twitter.com/9iF94UOOWq
Finch gat því ekki rætt við fjölmiðla eftir leik og í ljós kom að hann hefði slitið hnéskeljarsin. Hann fékk heimsókn frá leikmönnum sínum eftir leikinn og þeir gátu saman glaðst yfir áfanganum.
Útlit er fyrir að Minnesota mæti Denver Nuggets í næsta einvígi en Denver er 3-1 yfir gegn LA Lakers og gæti klárað einvígið í kvöld.
Clippers jöfnuðu einvígið
Indiana Pacers unnu Milwaukee Bucks 126-113 og eru komnir í 3-1 í einvígi liðanna í austurdeildinni. Milwaukee er án Damian Lillard og Giannis Antetokounmpo vegna meiðsla og Bobby Portis meiddist snemma leiks.
LA Clippers náðu svo að jafna einvígi sitt við Dallas Mavericks í 2-2, með 116-111 sigri. Dallas lenti 31 stigi undir í fyrri hálfleik en tókst með 40 stiga leik Kyrie Irving að komast yfir í leiknum, áður en Clippers tryggðu sér sigur á lokamínútunum. James Harden og Paul George skoruðu 33 stig hvor.