Körfubolti

Murray kramdi Lakers-hjörtun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamal Murray skorar sigurkörfu Denver Nuggets gegn Los Angeles Lakers.
Jamal Murray skorar sigurkörfu Denver Nuggets gegn Los Angeles Lakers. getty/Matthew Stockman

Jamal Murray var hetja Denver Nuggets þegar meistararnir unnu Los Angels Lakers, 101-99, í öðrum leik liðanna í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Denver er 2-0 yfir í einvíginu.

Lakers var með tuttugu stiga forskot í seinni hálfleik en Denver kom til baka og úrslitin réðust í blálokin. LeBron James hitti ekki úr þriggja stiga skoti í stöðunni 99-99 þegar þrettán sekúndur voru og Denver hélt í sókn. 

Murray fékk boltann og var einn gegn Anthony Davis, besta varnarmanni Lakers. Hann bjó sér til smá pláss og setti svo niður skot í þann mund sem leiktíminn rann út.

Murray átti erfitt uppdráttar framan af leik og klikkaði á þrettán af fyrstu sextán skotum sínum. En það kviknaði á honum í 4. leikhluta þar sem hann skoraði fjórtán af tuttugu skotum sínum.

Nikola Jokic átti enn einn stórleikinn fyrir Denver; skoraði 27 stig, tók tuttugu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Michael Porter skoraði 22 stig og tók níu fráköst.

Davis skoraði 32 stig og tók ellefu fráköst fyrir Lakers sem hefur tapað tíu leikjum gegn Denver í röð. LeBron var með 26 stig, átta fráköst og tólf stoðsendingar.

Í Austurdeildinni vann New York Knicks Philadelphia 76ers, 104-101, og Cleveland Cavaliers lagði Orlando Magic að velli, 96-86.

Jalen Brunson skoraði 24 stig fyrir Knicks sem er með 2-0 forystu í einvíginu. Josh Hart skoraði 21 stig og tók fimmtán fráköst.

Tyrese Maxey og Joel Embiid voru í sérflokki hjá Sixers. Maxey skoraði 35 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Embiid skilaði 34 stigum og tíu fráköstum. Hann gat jafnað metin undir lok leiks en þriggja stiga skot hans geigaði.

Donovan Mitchell skoraði 23 stig fyrir Cleveland sem hélt Orlando í skefjum með sterkum varnarleik. Flórída-liðið var aðeins með 36,3 prósent skotnýtingu í leiknum.

Paolo Banchero skoraði 21 stig fyrir Orlando sem er 2-0 undir í einvíginu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×