Innlent

Fjögurra milljarða króna tekjur á ári af spila­kössum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Rekstur spilakassa skilar umtalsverðum tekjum.
Rekstur spilakassa skilar umtalsverðum tekjum. Vísir/Baldur Hrafnkell

Tekjur Íslandsspila og Happdrættis Háskóla Íslands af spilakössum árið 2023 námu rétt tæpum fjórum milljörðum króna og hefur upphæðin farið vaxandi úr tveimur milljörðum árið 2020.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni þingmanns Pírata frá þingfundi í dag. Spurt var hverjar brúttótekjur Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands væru af spilakössum á árunum 2020, 2021, 2022 og 2023, að frádregnum vinningum.

Í svari dómsmálaráðherra kom í ljós að tekjur af spilakössum hafa aukist umtalsvert á síðustu árum. Úr 683 milljónum króna Íslandsspila og 1.348 milljónum króna Happdrættis Háskóla Íslands árið 2020 í 1.046 milljónir króna Íslandsspila og 2.951 milljónir króna Happdrættis Háskóla Íslands.

Einnig kom fram að heildarvinningsfjárhæðir ársins 2023 námu 9.627 milljón krónum eða tæplega tíu milljörðum. Vinningarnir voru þó að langmestu leyti greiddur út af umboðsaðilum en hluti af þeim, eða 581 milljón króna, var greiddur út af fyrirtækjunum sjálfum.

Happdrætti Háskóla Íslands rekur 470 spilakassa og Íslandsspil 337. Vinningshlutfall spilakassaleikja beggja fyrirtækja er í kringum 92 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×